Hvar endar þetta?

Æ, ég er efins um allt svona opinbert eftirlit.  Stjórnvöld eru alltaf að teygja sig lengra inn í einkalíf manna.  Samkvæmt þessari frétt á þetta að vera að kröfu Evrópusambandsins og tölvukubburinn í bílnum á að senda upplýsingar um staðsetningu, hraða og annað sem máli skiptir til neyðarlínunnar.  Ég efa það ekki að hér er falleg hugsun að baki en hvar endar þetta.   Svo virðist sem skáldsaga George Orwell’s “1984” sé ekki svo fjarlæg eftir allt.  Bókin var gefin út 1949 og þýdd á íslensku 1951 að því mig minnir.  Þar er leitast við að steypa alla í sama mót og helmingur mannkyns hefur það að vinnu að fylgjast með hinum helmingnum.  Þetta er væntanlega það sem við viljum og allt stefnir í.  Þó það hafi ekki gerst 1984 þá gæti það gert 2084.
mbl.is Allir bílar undir gervihnattaeftirliti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tenerife

Ég er nýkominn úr sumarfríi frá Tenerife.  Í fyrra fórum við tvö, ég og konan mín og gistum á Gran Hotel Costa Adeje í tvær vikur í góðu yfirlæti, rólegu og þægilegu umhverfi.  Núna var ákveðið að taka krakkana með og vildum við þá helst vera nærri Americas ströndinni þar sem styttra væri í verslanir og afþreyingu fyrir krakkana.  Eftir töluverða yfirlegu völdum við gistingu á Hótel Gala, það virtist vera þó nokkuð huggulegt þegar heimasíða þess var skoðuð.  Þar mátti finna video búta frá hótelinu og garðinum í kring þar sem myndavélin panaði rólega yfir svæðið undir klassískri tónlist ásamt rödd ómþýðs þular sem taldi upp alla kosti hótelsins.  Við pöntuðum tvö herbergi með  “pool-view” og hálft fæði – þægilegt að eiga alltaf inni morgunmat og kvöldmat á hótelinu , þó svo kvöldmaturinn yrði ekki alltaf nýttur. 

 

Seint að kvöldi 8. ágúst renndi rútan sér að aðalinngangi hótelsins.  Okkur brá nú nokkuð, því miklir djamm staðir voru rétt fyrir utan hótelið, en þar sem við vorum öll þreytt, spáðum ekki mikið í það, vildum bara komast inn í herbergi og leggja okkur.  Eftir nokkra bið, þar sem tíminn var nýttur í að skoða í kringum sig í móttökunni og átta sig á aðstæðum, fengum við afhenta lykla að herbergjunum – á 1. hæð.  Þess má geta að hótelið er byggt í nokkurri brekku þannig að fyrsta hæð er eiginlega kjallari, maður kemur inn í móttökuna á annari hæð.  Ég spurði manninn í móttökunni hvor þetta væru herbergi með “pool-view”.  Ó já, svo sagði hann vera.  Ég spurði þá hvernig það mætti vera að herbergi á fyrstu hæð væri með “pool-view” þegar sundlaugin væri á annari hæð?  Það var frekar fátt um svör og reyndi hann að kjafta sig út úr þessu.  Við vorum þreytt og ákváðum að geyma málið til morguns, fara að sofa en taka ekki upp úr töskunum. 

 

Þá kom að leitinni að herbergjunum.  Eftir að hafa reynt nokkrar lyftur komumst við að því að annað hvort voru þær bilaðar eða að þær gengu ekki niður á fyrstu hæð.  Eftir að hafa dröslast niður nokkra stiga með töskurnar og leitað að herbergjagangi einhversstaðar.  Ákvað ég að fara aftur upp og spyrja nánar til vegar.  Jú, við áttum að fara niður “þennan” stiga og strax til vinstri.  Við gerðum það og blasti þá við okkur hurð sem minnti á neyðarútgang.  Eftir að hafa togað og ýtt á hana í einhvern tíma ákvað ég að sparka í neyðarslá hurðarinnar og þeyttist hún þá upp.  Blasti þá við okkur rökkvaður gangur þar sem við gátum loks rakið okkur leið að herbergjunum.  Þau voru frekar boruleg. 

 

Morguninn eftir sáum við að útsýnið úr kjallaraholunni var ekkert.  Kvartanir báru engan árangur.  Þegar út var komið var greinilega djammið frá kvöldinu áður búið, því við þurftum að klofa yfir glerbrot og ælur - eitthvað sem ganga mátti að sem vísu á hverjum  morgni.  Það, ásamt ástandinu fyrir utan hótelið á kvöldin sem líkja mætti við laugardagskvöld í miðborg Reykjavíkur í allra vesta ástandi, var kornið sem fyllti mælinn.  Nú lögðum við ofuráherslu á að skipta um hótel.  Eftir að hafa hringt í ferðaskrifstofuna heima og talað við fararstjórann, gátum við fengið okkur flutt á sama hótelið og við vorum í fyrra, Gran Hotel Costa Adeje.

 

Við þurftum að vera á Hótel Gala í 4 nætur.  Restina af þessu þriggja vikna fríi eyddum við á Costa Adeje í góðu yfirlæti.  Ég get ekki mælt með Hótel Gala, nema þá kannski fyrir ungt fólk í útskriftarferð eða fyrir þá sem eyða nóttinni í djamm og skemmtanir utan hótels og daglegur aðbúnaður hótelsins skiptir minna máli.  Þess á einnig geta með Hótel Gala að þar er rukkað sérstaklega fyrir dýnur á sólbekkina og handklæði við laugina.  Þegar við tékkuðum okkur út af Hótel Gala hljóðaði reikningurinn upp á 150 evrur eftir 4 nætur (3½ dag)! – Allt var þetta einhverskonar aukakostnaður, sem allur var innifalinn í Gran Hotel Costa Adeje, enda borguðum við ekki 1 evru þegar við fórum af því hóteli eftir 17 nætur. 

 

Gran Hotel Costa Adeje er ágætlega staðsett, stutt í alla þjónustu og frábærar gönguleiðir niður að ströndinni og eftir henni.  Hótelið er ósköp notalegt, með alúðlegri þjónustu og góðum mat (mörgum klössum fyrir ofan matinn á Gala).  Þarna eru margar sundlaugar og m.a. ein uppi á þaki.  Ég mæli með þessu hóteli, þó að ég sé ekki á því að gista þarna í þriðja skiptið.  Fari ég aftur til Tenerife prófa ég sennilega annaðhvort Hotel Villa Cortes sem er frábærlega staðsett hótel á Americas ströndinni eða Bahia Del Duque sem er yndislegt hótel á Adeje ströndinni, rétt fyrir neðan Gran Hotel.


Helgidómar Dauðans

Greinin inniheldur ekki „spoiler“.

 

Jæja, þá er ég búinn að lesa „Harry Potter & Helgidóma Dauðans“.  Þetta ævintýri sem J.K. Rowling hefur skapað er ótrúlega skemmtilegt, jafnvel fyrir svona gamla karla eins og mig.  Ég man þegar ég keypti mér fyrstu bókina eftir að hafa lesið fréttir um hana, ég ætlaði aldrei að komast í gegnum fyrsta kaflann, þvílík leiðindi.  En svo byrjaði allt að flæða.  Höfundinum tókst að skapa heillandi heim með litríkum persónum og náði að hrífa með sér unga sem aldna eða einfaldlega alla þá sem náðu að komast í gegnum „fyrsta kaflann“.  Ævintýrið um Harry Potter á eftir að vera lífseigt.  Ég trúi því að jafnvel þótt Rowling sé hætt að skrifa um galdraheiminn þá lifi Harry Potter áfram eins og Grimms-ævintýrin og eigi eftir að gleðja margt barnið, ungt sem gamalt.


Samkeppni?

Samkeppni er af hinu góða fyrir neytendur, en það er ekkert fyrirtæki til sem fagnar samkeppni, hvað sem fulltrúar þeirra segja á tyllidögum.  Í Mjóddinni í Reykjavík eru þrjú apótek undir sama þaki!  Öll eru þau aðlaðandi hvert á sinn hátt, með yndislegu og hjálpsömu starfsfólki.  Ætla mætti að eitthvert þessara apóteka hefðu lagt upp laupana á þeim tíma sem þau hafa starfað þar, en svo er ekki.  Hver ætli skýringin sé á því?  Svipað verð í þeim öllum og slembival viðskiptavina hvar þeir versla?  Eða sú staðreynd að við íslendingar eru lélegir neytendur og kunnum illa með fé að fara.  Varla hefur samkeppnin virkað þarna.  Yfirleitt látum við allt yfir okkur ganga og borgum þegjandi og hljóðalaust uppsett verð - nöldrum kannski pínulítið eins og ég er að gera núna.


mbl.is Fæstir um hvert apótek í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afköstin fallin niður í 1%

Ég hef ekkert botnað í því hvað ég hef verið slæmur í hendinni undanfarnar tvær vikur.  Þetta var farið að pirra mig töluvert svo ég ákvað að láta skoða málið.  Það kom í ljós að ég var brotinn svo ekki er að undra að ég finni til.  Nú er ég kominn með gifs fram á fingurgóma og vélritunarhraðinn fallinn úr 300 orðum á mínútu niður í 3.  Þetta er sem sé skýringin á fækkun bloggfærslna.  Vona að losni við gifsið sem fyrst ....

Galdrafár ...

Það hefði svo sem mátt búast við þessu því eftirvæntingin eftir síðustu Harry Potter bókinni er gífurleg.

Ég er búinn að lesa allar bækurnar um Harry Potter og sjá allar kvikmyndirnar.  Bækurnar finnst mér einstaklega góðar og skemmtilegar, sömuleiðis kvikmyndirnar þó þær nái ekki sömu hæðum og bækurnar.  Mestu vonbrigðin voru þegar ég sá "Eldbikarinn" því helmingnum af bókinni var sleppt.  Ég las það einhvers staðar að leikstjóranum hafi verið bent á að betra væri að stytta myndina í stað þess að reyna að troða öllu efni bókarinnar í eina langa kvikmynd.  Það má vel vera rétt, en þar sem skemmtanagildið er það mikið og áhuginn úti um allan heim ótvíræður, hefði verið hægt að fara leið Quentin Tarantino og gera tvær myndir og frumsýna þær með mánaðar millibili, eins og hann gerði með Kill Bill.  Það hefði örugglega borgað sig og glatt aðdáendur um allan heim.

En hvað með það - Ég bíð spenntur eftir Deathly Hallow og verð sjálfsagt í röðinni með litlu börnunum á föstudagskvöldið til að kaupa bókina. 


mbl.is Kærur lagðar fram vegna sölu nýju Harry Potter bókarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins ....

Cool    Jæja, loksins er ég búinn að gera það sem ég hef ætlað að gera lengi - opna mína eigin bloggsíðu.  Hugmyndin er að taka virkan þátt í samfélagsumræðunni því alltaf hefur maður einhverjar meiningar og skoðanir sem gaman væri að fá viðbrögð við.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband