Tenerife

Ég er nýkominn úr sumarfríi frá Tenerife.  Í fyrra fórum við tvö, ég og konan mín og gistum á Gran Hotel Costa Adeje í tvær vikur í góðu yfirlæti, rólegu og þægilegu umhverfi.  Núna var ákveðið að taka krakkana með og vildum við þá helst vera nærri Americas ströndinni þar sem styttra væri í verslanir og afþreyingu fyrir krakkana.  Eftir töluverða yfirlegu völdum við gistingu á Hótel Gala, það virtist vera þó nokkuð huggulegt þegar heimasíða þess var skoðuð.  Þar mátti finna video búta frá hótelinu og garðinum í kring þar sem myndavélin panaði rólega yfir svæðið undir klassískri tónlist ásamt rödd ómþýðs þular sem taldi upp alla kosti hótelsins.  Við pöntuðum tvö herbergi með  “pool-view” og hálft fæði – þægilegt að eiga alltaf inni morgunmat og kvöldmat á hótelinu , þó svo kvöldmaturinn yrði ekki alltaf nýttur. 

 

Seint að kvöldi 8. ágúst renndi rútan sér að aðalinngangi hótelsins.  Okkur brá nú nokkuð, því miklir djamm staðir voru rétt fyrir utan hótelið, en þar sem við vorum öll þreytt, spáðum ekki mikið í það, vildum bara komast inn í herbergi og leggja okkur.  Eftir nokkra bið, þar sem tíminn var nýttur í að skoða í kringum sig í móttökunni og átta sig á aðstæðum, fengum við afhenta lykla að herbergjunum – á 1. hæð.  Þess má geta að hótelið er byggt í nokkurri brekku þannig að fyrsta hæð er eiginlega kjallari, maður kemur inn í móttökuna á annari hæð.  Ég spurði manninn í móttökunni hvor þetta væru herbergi með “pool-view”.  Ó já, svo sagði hann vera.  Ég spurði þá hvernig það mætti vera að herbergi á fyrstu hæð væri með “pool-view” þegar sundlaugin væri á annari hæð?  Það var frekar fátt um svör og reyndi hann að kjafta sig út úr þessu.  Við vorum þreytt og ákváðum að geyma málið til morguns, fara að sofa en taka ekki upp úr töskunum. 

 

Þá kom að leitinni að herbergjunum.  Eftir að hafa reynt nokkrar lyftur komumst við að því að annað hvort voru þær bilaðar eða að þær gengu ekki niður á fyrstu hæð.  Eftir að hafa dröslast niður nokkra stiga með töskurnar og leitað að herbergjagangi einhversstaðar.  Ákvað ég að fara aftur upp og spyrja nánar til vegar.  Jú, við áttum að fara niður “þennan” stiga og strax til vinstri.  Við gerðum það og blasti þá við okkur hurð sem minnti á neyðarútgang.  Eftir að hafa togað og ýtt á hana í einhvern tíma ákvað ég að sparka í neyðarslá hurðarinnar og þeyttist hún þá upp.  Blasti þá við okkur rökkvaður gangur þar sem við gátum loks rakið okkur leið að herbergjunum.  Þau voru frekar boruleg. 

 

Morguninn eftir sáum við að útsýnið úr kjallaraholunni var ekkert.  Kvartanir báru engan árangur.  Þegar út var komið var greinilega djammið frá kvöldinu áður búið, því við þurftum að klofa yfir glerbrot og ælur - eitthvað sem ganga mátti að sem vísu á hverjum  morgni.  Það, ásamt ástandinu fyrir utan hótelið á kvöldin sem líkja mætti við laugardagskvöld í miðborg Reykjavíkur í allra vesta ástandi, var kornið sem fyllti mælinn.  Nú lögðum við ofuráherslu á að skipta um hótel.  Eftir að hafa hringt í ferðaskrifstofuna heima og talað við fararstjórann, gátum við fengið okkur flutt á sama hótelið og við vorum í fyrra, Gran Hotel Costa Adeje.

 

Við þurftum að vera á Hótel Gala í 4 nætur.  Restina af þessu þriggja vikna fríi eyddum við á Costa Adeje í góðu yfirlæti.  Ég get ekki mælt með Hótel Gala, nema þá kannski fyrir ungt fólk í útskriftarferð eða fyrir þá sem eyða nóttinni í djamm og skemmtanir utan hótels og daglegur aðbúnaður hótelsins skiptir minna máli.  Þess á einnig geta með Hótel Gala að þar er rukkað sérstaklega fyrir dýnur á sólbekkina og handklæði við laugina.  Þegar við tékkuðum okkur út af Hótel Gala hljóðaði reikningurinn upp á 150 evrur eftir 4 nætur (3½ dag)! – Allt var þetta einhverskonar aukakostnaður, sem allur var innifalinn í Gran Hotel Costa Adeje, enda borguðum við ekki 1 evru þegar við fórum af því hóteli eftir 17 nætur. 

 

Gran Hotel Costa Adeje er ágætlega staðsett, stutt í alla þjónustu og frábærar gönguleiðir niður að ströndinni og eftir henni.  Hótelið er ósköp notalegt, með alúðlegri þjónustu og góðum mat (mörgum klössum fyrir ofan matinn á Gala).  Þarna eru margar sundlaugar og m.a. ein uppi á þaki.  Ég mæli með þessu hóteli, þó að ég sé ekki á því að gista þarna í þriðja skiptið.  Fari ég aftur til Tenerife prófa ég sennilega annaðhvort Hotel Villa Cortes sem er frábærlega staðsett hótel á Americas ströndinni eða Bahia Del Duque sem er yndislegt hótel á Adeje ströndinni, rétt fyrir neðan Gran Hotel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eg var a Tenerife í fyrra og var á Hóteli á Amerískuströndinni sem heitir Park santiaco IV það er mjög fínt hótel stutt í allt og allt hið besta en það er kannski svona meira íbúðahótel

Einar Júlíus Óskarsson (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 08:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband